Forsíða
1.2 Starfsemi ársins

Ávarp framkvæmda­stjóra

Gerð­ur Guð­jóns­dótt­ir

Afkoma sjóðsins á árinu 2023 var betri en gert var ráð fyrir en hrein eign sjóðsins hækkaði um 54,6 ma.kr á milli ára sem samsvarar nafnávöxtun upp á 10,6% og raunávöxtun 2,4%. Iðgjöld ársins námu 30,0 ma.kr og lífeyrisgreiðslur 12,1 ma.kr. þannig að nettó innflæði frá sjóðfélögum og launagreiðendum var 17,9 ma.kr. Fjárfestingaeignir skiluðu tekjum sem námu 37,5 ma.kr og rekstrarkostnaður ársins var um 716,1 m.kr.

Raunávöxtun ársins 2023 nam 2,4% og nafnávöxtun 10,6%

Samþykktabreytingar

Eins og fram hefur komið voru gerðar tvær breytingar á samþykktum sjóðsins á árinu 2023 er vörðuðu A og V deildina. Breytingarnar voru nauðsynlegar til að bregðast við tryggingafræðilegri stöðu deildanna m.a. vegna þess að lífaldur landsmanna fer hækkandi. Til viðbótar þurfti að lækka réttindi í A og V deild um 10%.  Lækkunin á áunnum aldurstengdum réttindum í A og V deild var framkvæmd í  febrúar 2023 en lækkunin á áunnum jöfnum réttindum var framkvæmd í lok ársins 2023. Lækkun á lífeyrisgreiðslum var gerð í janúar 2024. 

Tryggingafræðileg staða

Það er jákvætt að þær mótvægisaðgerðir sem sjóðurinn greip til á árinu og góð ávöxtun ársins hafa skilað tilætluðum árangri en tryggingafræðileg staða A deildarinnar hefur gjörbreyst milli ára. Eignir sjóðsins umfram skuldbindingar eru nú 3,2 ma.kr. eða jákvæð staða sem nemur 0,6%. Það sama má segja um stöðu V deildarinnar en hún er einnig jákvæð, eða um 704 m.kr. eða 0,5%.   

Mótvægisaðgerðir og góð ávöxtun skiluðu tilætluðum árangi

Lífeyrisaukasjóður

Við breytingu á A deildinni árið 2017 var innheimt framlag í lífeyrisaukasjóð frá launagreiðendum en sá sjóður á að standa undir jafnri ávinnslu réttinda. Sjóðurinn er hluti af hreinni eign A deildar og ávaxtast með sama hætti og aðrar eignir deildarinnar. Til grundvallar færslum úr lífeyrisaukasjóði er árlega reiknuð breyting á skuldbindingu miðað við jöfn réttindi annars vegar og breytingu á skuldbindingu miðað við aldursháð réttindi hins vegar og er mismunurinn þar á milli framlag ársins. Samþykktarbreytingar á árinu höfðu einnig áhrif á tryggingafræðileg stöðu lífeyrisaukasjóðsins. Í árslok 2023 var staða lífeyrisaukasjóðsins jákvæð um 1,7 ma.kr. samanborið við árslok 2022 en þá var hún neikvæð um 23,9 ma.kr. Þá voru eignir varúðarsjóðs að fjárhæð 3,9 m.kr. færðar í lífeyris­aukasjóðinn í lok árs 2023.

Þegar lífeyrisaukasjóðurinn var upphaflega reiknaður var hvorki gert ráð fyrir breytingum á töflum um lífslíkur eða örorku né launahækkunum í framtíðinni. Stjórnendur og tryggingastærðfræðingur sjóðsins bentu á þessa vankanta í reikniverki lífeyrisaukasjóðsins í aðdraganda lagabreytinganna en lífeyrisaukasjóðurinn hefur ekki staðið undir jafnri ávinnslu réttinda eins og til stóð.

staða lífeyrisaukasjóðs jákvæð um1,7 ma.kr.

Varúðarsjóður

Varúðarsjóður var framlag sem launagreiðendur A deildar lögðu til á grundvelli 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII við lög nr. 129/1997. Varúðarsjóðnum var ætlað að standa að baki lífeyrisaukasjóðnum ef eignir hans dugðu ekki til. Varúðarsjóðurinn var aðgreindur frá öðrum fjármunum sjóðsins.  

Í lok árs 2023 ákvað matshópur sem skipaður er fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, BSRB, Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands að ráðstafa öllum fjármunum varúðarsjóðs í lífeyrisauksjóð til að mæta skuldbindingum hans þar sem tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs hefur verið neikvæð um meira en 10% í fimm ár. Sjóðurinn hefur bent stofnaðilum sjóðsins á að tímabært er fyrir launagreiðendur að hefja viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig bregðast eigi við stöðunni.

Vegferð okkar í átt að sjálfbærni

Innleiðing sjálfbærni í rekstri og fjárfestingum sjóðsins er vegferð sem rétt er að hefjast. Skýrslan er sú þriðja í röðinni en hún er eitt af mörgum skrefum sem við ætlum að taka til að upplýsa hagaðila um hvernig okkur miðar í vegferðinni. Við viljum stuðla að sjálfbærni í samfélaginu þar sem horft er til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta en á árinu var ráðinn sérfræðingur í sjálfbærni til að móta og fylgja eftir framkvæmd sjálfbærnistefnu sjóðsins.

Upplýsingatækni

Upplýsingatækni er mikilvægur þáttur í rekstri sjóðsins og starfsumhverfi hans. Sjóðurinn reiðir sig í æ ríkara mæli á stafræna tækni og hnökrar í rekstri net-og upplýsingakerfa geta haft víðtækar og alvarlegar afleiðingar í för með sér. Með virkum og vönduðum öryggisráðstöfunum er lágmörkuð sú áhætta sem steðjað getur að öryggi net- og upplýsingakerfa. Tekin var ákvörðun á árinu 2023 að leggja enn frekari  áherslu á upplýsingatæknistjórnun og í lok ársins var ráðinn starfsmaður í nýtt stöðugildi en sá aðili mun sjá um að stýra upplýsingatækni sjóðsins.

Áfram er lögð áhersla á stafræna vegferð en okkar markmið er að auka sjálfvirkni til að tryggja traust og skilvirkt verklag og lækka þannig rekstrarkostnað til lengri tíma. Í samræmi við það hefur sjóðurinn nú innleitt nýjar vefþjónustur sem auðveldar aðgengi að gögnum eins og iðgjaldayfirlitum, reikningum o.fl.

Virkar og vandaðar öryggisráðstafanir lágmarka áhættu

Vefur sjóðsins

Vefur sjóðsins, lifbru.is, tók miklum breytingum á árinu en jafnframt var farið heildstætt yfir allt efni síðunnar og upplýsingar uppfærðar og bættar. Þá hefur sjóðurinn hafið vinnu við endurmörkun sjóðsins í samstarfi við ráðgjafa. 

Sjóðfélagalán

Vaxtakjör sjóðfélagalána

Á árinu 2023 hækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti úr 6% í 9,25% sem hafði áhrif á vexti sjóðfélagalána sjóðsins. Í samræmi við aðferðafræði sjóðsins um vaxtaákvarðanir lána voru gerðar sex breytingar á vaxtakjörum lána til hækkunar.  

Ný lán á árinu

Mikil eftirspurn var eftir lánum sjóðsins en á árinu voru afgreidd 914 lán og nam heildarfjárhæð þeirra tæpum 27 milljörðum króna. Útistandandi lán voru alls 2.709 í árslok og heildarfjárhæð þeirra 65,7 ma.kr.  Í samræmi við fjárfestingastefnu sjóðsins varð sjóðurinn að bregðast við þessari miklu eftirspurn lána og breyta lánareglum sínum.

Ný lífeyrisreiknivél á vef sjóðsins

Sjóðurinn hefur tekið í notkun reiknivél fyrir lífeyri en hún var unnin með Devon ehf. Reiknivélin gefur sjóðfélögum betri yfirsýn yfir möguleg lífeyrisréttindi miðað við mismunandi forsendur eins og tekjur, aldur og breytingu á vísitölu. Jafnframt auðveldar reiknivélin sjóðfélögum að taka upplýstar ákvarðanir um hvenær lífeyristaka eigi að hefjast og val á deildum sjóðsins. Þá sýnir reiknivélin hvaða áhrif það hefur á samtrygginguna ef hluti af iðgjaldi í V deild fer í séreign. Reiknivélin sýnir þó aðeins eftirlaun sem greidd eru til æviloka, þ.e. réttindi í samtryggingu, en sjóðurinn starfrækir ekki séreignadeild.

Betri yfirsýn yfir möguleg lífeyrisréttindi

Náttúruhamfarir á Reykjanesi

Í kjölfar náttúruhamfaranna í nóvember bauð sjóðurinn lántakendum sínum í Grindavík strax sex mánaða greiðslufrest á íbúðalánunum án kostnaðar við frystinguna. Sjóðurinn er, ásamt 11 öðrum lífeyrissjóðum, aðili að samkomulagi við fjármála- og efnahagsráðherra um stuðning vegna húsnæðislána til einstaklinga í Grindavík en í því samkomulagi tekur ríkissjóður að sér að greiða vexti og verðbætur af fasteignalánum yfir sex mánaða tímabil. Sjóðurinn hefur einnig undirritað  samkomulag ásamt öðrum lánveitendum við Þórkötlu varðandi uppkaup á  íbúðarhúsnæði  í  Grindavík í samræmi við lög um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík nr. 16/2024.

ÍL-sjóður

Á árinu hefur lítið þokast í málefnum ÍL sjóðs. Að mati lögfræðiálits sem lífeyrissjóðirnir létu vinna fyrir sig eru áform fjármála- og efnahagsráðherra um lagasetningu er varðar slit og uppgjör á ÍL-sjóði byggð á ófullnægjandi greiningu á lagalegum og fjárhagslegum þáttum. Fyrirhuguð löggjöf felur í sér eignarnám, er andstæð stjórnarskrá og til þess fallin að baka íslenska ríkinu skaðabótaskyldu sem kynni að hafa í för með sér veruleg viðbótarfjárútlát af hálfu ríkissjóðs í formi dráttarvaxta og kostnaðar og er ávísun á langvarandi málaferli.

Þrátt fyrir þau frumvarpsdrög sem nú liggja fyrir eru hafnar viðræður á milli fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ÍL-sjóðs og íslenska ríkisins, og fulltrúum 18 lífeyrissjóða, um uppgjör á skuldabréfum sjóðsins. Markmið viðræðnanna er að ná samkomulagi sem felur í sér að skuldabréfin verði gerð upp að fullu og skilyrði sköpuð fyrir slitum ÍL-sjóð.

Viðræður hafnar um uppgjör á skuldabréfum ÍL-sjóðsins

Brúin til framtíðar

Á undanförnum árum hefur mikið verið unnið við að straumlínulaga starfsemi sjóðsins en frekara svigrúm skapast ef af sameiningu Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og sjóðsins verður. Áfram verður lögð áhersla á góða og skilvirka þjónustu við sjóðfélaga, nýtt réttindakerfi, sjálfbærni, stafræna þróun og hagræðingu. Hjá sjóðnum starfar afar hæft og gott starfsfólk með víðtæka þekkingu og reynslu. Fólkið okkar er reiðubúið til að taka næstu skref til að byggja upp framúrskarandi lífeyrissjóð og leysa krefjandi og spennandi verkefni sem framundan eru með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.  

Við höfum á að skipa framúrskarandi hæfu starfsfólki með mikla þekkingu og reynslu á sínu sviði