Forsíða
1.1 Starfsemi ársins

Ávarp stjórnar­formanns

Auð­ur Kjart­ans­dótt­ir

Aðstæður á verðbréfamörkuðum voru nokkuð sveiflukenndar á árinu 2023. Til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu hækkaði Seðlabanki Íslands meginvexti sína um 3,25% á árinu eða úr 6% í 9,25%.  Þær hækkanirnar höfðu mikil áhrif bæði á innlendan skuldabréfamarkað og innlendan hlutabréfamarkað sem átti frekar erfitt uppdráttar á árinu. Erlendir markaðir áttu hins vegar afar gott ár og skiluðu sjóðnum góðri ávöxtun. Afkoma sjóðsins á árinu var því betri en útlit var fyrir langt fram eftir ári en nafnávöxtun sjóðsins endaði í 10,6% og raunávöxtunin nam 2,4% þar sem verðbólga ársins var há eða 8%. Sjóðurinn er langtímafjárfestir og hefur ávöxtun sjóðsins síðustu ár verið góð fyrir utan árið 2022 en 10 ára meðaltalið er nú 3,4% sem er nálægt því viðmiði sem lífeyrissjóðir nota við útreikning á tryggingafræðilegri stöðu sem er 3,5%.

10 ára meðaltalið á ávöxtun sjóðsins er nú nálægt því viðmiði sem lífeyrissjóðir nota við útreikning á tryggingafræðilegri stöðu

Íslenska lífeyriskerfið í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði

Það er mjög jákvætt að íslenska lífeyriskerfið er áfram í fremstu röð í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að. Í þessum samanburði eru lífeyriskerfi í alls 47 löndum metin en í efstu sætum með A í einkunn eru Holland, Ísland, Danmörk og Ísrael. Fram kemur í skýrslunni að A einkunn gefur til kynna að um er að ræða "fyrsta flokks og öflugt lífeyriskerfi sem tryggir góð réttindi, er sjálfbært og sem traust ríkir um".

Í september s.l. voru tvær greinar birtar um íslenska lífeyriskerfið í tímaritinu Investment and Pensions Europe. Annars vegar var fjallað um helstu breytingar á starfsumhverfi lífeyrissjóða og regluverki þeirra og hins vegar um stöðu Íslands í tveimur alþjóðlegum lífeyristölum.  

Þá var Ísland einnig efst á vísitölu kynbundins launamismunar, Global Gender Gap Index, sem þýska ráðgjafarfyrirtækið Statista gaf út í apríl 2023. Þar er reiknað út frá 14 mælikvörðum efnahagsmála, stjórnmála, mennta- og heilbrigðismála. Ísland fékk einkunnina 0,91 í vísitölu þar sem fullkomið launajafnræði kynjanna gæfi einkunnina 1. Í næstu sætum var Noregur með einkunnina 0,87 og Finnland með einkunnina 0,86.

Samþykktarbreytingar á árinu

Tryggingafræðileg staða A deildar í lok árs 2022 var 10,8% í halla og því varð stjórn að grípa til aðgerða og breyta samþykktum sjóðsins í samræmi við tillögur tryggingastærðfræðings til að koma deildinni í jafnvægi. Strax í upphafi ársins 2023 voru gerðar breytingar á samþykktum sjóðsins annar vegar vegna hækkunar á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða og hins vegar voru gerðar breytingar á aldurstengdri réttindaávinnslu bæði í A og V deild. Ávinnsla réttindanna var lækkuð þar sem nú liggur fyrir spálíkan sem gerir ráð fyrir lengri lífaldurs landsmanna og hafa því samþykktirnar nú nýjar réttindatöflur sem taka mið af bæði aldri og fæðingarári. Í lok ársins voru aftur gerðar breytingar á samþykktum sjóðsins en þá voru framtíðarréttindi í jafnri ávinnslu A deildar lækkuð en að auki voru áunnin réttindi í A og V deild lækkuð um 10%.

Samkvæmt lögum verða réttindi þeirra sjóðfélaga í A deild sem komnir voru á lífeyri 1. júní 2017 eða orðnir 60 ára á sama tíma ekki breytast og því bera launagreiðendur þessa hóps ábyrgð á réttindum þeirra ef til lækkunar kemur á réttindum þeirra. Í byrjun árs 2024 hóf sjóðurinn að innheimta fyrir framangreindan hóp hjá launagreiðendum eða sem nemur 10% af greiddum lífeyri. Árlegt framlag launagreiðenda vegna þessa hóps verður um 600 m.kr en innheimtan er til næstu áratuga eða þar til lífeyrisgreiðslur þessa hóps falla niður.

Gripið var til aðgerða til til að koma á jafnvægi

Sameining Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar í sjóðinn

Fyrirhuguð er sameining Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar við sjóðinn en stjórnir beggja sjóðanna hafa samþykkt viljayfirlýsingu um sameiningu frá 1. janúar 2024. Brú lífeyrissjóður hefur séð um umsýslu sjóðsins allt frá árinu 1998.

Sameiningin er hugsuð þannig að Brú lífeyrissjóður stofnar nýja deild en í þá deild færist rekstur, eignir, skuldir og skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Bakábyrgð Reykjavíkurborgar myndi aðeins ná yfir þá deild.  Þess ber að geta að Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar var lokaður fyrir nýja sjóðfélaga þann 1. júlí 1998 með lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Ljóst er að umtalsverður fjárhagslegur ávinningur mun nást með sameiningu sjóðanna sem felst fyrst og fremst í lækkun á kostnaði við ytri og innri endurskoðun, stjórnarlaun, endurskoðunarnefnd, tryggingar og eftirlitsgjöld. Jafnframt mun sameiningin skapa tækifæri til að bæta rekstur sjóðanna enn frekar með betri nýtingu starfsfólks.  

Megin forsendan fyrir sameiningu lífeyrissjóðanna er að réttindi og réttindaávinnsla sjóðfélaga til framtíðar verður óbreytt sem og bakábyrgð Reykjavíkurborgar. Við sameiningu verður réttindakafli Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar óbreyttur.

Tillagan um sameininguna er í vinnslu hjá bakábyrgðaraðila sjóðsins sem er Reykjavíkurborg en niðurstöðu má vænta á næstu mánuðum.

Ljóst er að umtalsverður fjárhagslegur ávinningur mun nást með sameiningu sjóðanna

Ófjárhagsleg upplýsingagjöf

Í fyrsta sinn er sjóðurinn að veita upplýsingar um hversu stórt hlutfall af eignum sjóðsins teljast vera grænar eignir í samræmi við flokkunarreglugerð ESB (2020/852). Sú reglugerð skilgreinir hversu sjálfbær, eða græn, atvinnustarfsemi fyrirtækja flokkast og fyrirtækjum á fjármálamarkaði ber síðan að nota þær upplýsingar til að upplýsa hvernig það endurspeglast í starfsemi þeirra. Þetta er hluti af viðleitni ESB við að stuðla að fjárfestingum í sjálfbærum rekstri og sporna við grænþvotti. Þessi reglugerð tók gildi 1. júní 2023 og er innleiðing hennar skammt á veg komin og upplýsingar fyrirtækja af skornum skammti. Því ber að taka upplýsingarnar sem eru settar fram í ársreikningnum með þeim fyrirvara að vegferð ESB er að hefjast og væntanlega verða upplýsingar skilmerkilegri í framtíðinni.

Starfshópur um heildarendurskoðun lífeyrissjóðakerfisins

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er það verkefni að vinna grænbók um lífeyriskerfið. Vonir standa til að grænbókin geti orðið grundvöllur að ítarlegri stefnumörkun og undirbúningi að breytingum á þeim lagaramma sem Alþingi setur um lífeyrismál og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Verkefni starfshópsins er að greina stöðu og framtíð lífeyrissjóðakerfisins með heildstæðum hætti en tilurð verkefnisins má rekja til endurskoðunar á forsendum Lífskjarasamningsins haustið 2020 en þá lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún myndi hafa forystu um stefnumörkun í lífeyrismálum í nánu samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði og Landssamband lífeyrissjóða. 

Stjórnarhættir

Leiðarljós stjórnar eru að tileinka sér góða stjórnarhætti. Við mótun stjórnarhátta hefur sjóðurinn stuðst við leiðbeiningar sem fram koma í leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar voru út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins í febrúar 2021. Sjóðurinn víkur þó að hluta frá leiðbeiningunum einkum þar sem efnistök þeirra eiga ekki við um lífeyrissjóði, til að mynda atriði sem varða hluthafafundi og hluthafa. Stjórnin hefur sett sér starfsreglur þar sem hlutverk hennar er skilgreint en þær eru aðgengilegar á vef sjóðsins.

Á árinu 2023 var framkvæmt árangursmat á störfum stjórnar, framkvæmdastjóra og endurskoðunarnefndar með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa. Matið fól meðal annars í sér að framangreindir aðilar lögðu mat á styrkleika og veikleika í störfum sínum fyrir sjóðinn, yfirferð á verklagi og þeim þáttum sem gera má betur. Ljóst er að matið mun hjálpa sjóðnum að bæta vinnubrögð og auka skilvirkni stjórnar, framkvæmdastjóra og endurskoðunarnefndar.

Breytingar á stjórn

Í byrjun ársins 2024 sagði Sonja Þorbergsdóttir sig úr stjórn sjóðsins en í hennar stað tilnefndi BSRB Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka Sonju fyrir afar góð störf fyrir sjóðinn og frábært samstarf í gegnum árin.

Árangursmatið mun hjálpa sjóðnum að bæta vinnubrögð og auka skilvirkni stjórnar, framkvæmdastjóra og endurskoðunarnefndar

Þakkir til starfsfólks

Starfsemi sjóðsins gekk vel á þessu ári en starfsfólk sjóðsins býr yfir viðamikilli reynslu og þekkingu sem gagnast vel þegar sinna þarf krefjandi og flóknum verkefnum. Ég, fyrir hönd stjórnar, þakka starfsfólki sjóðsins fyrir afar gott samstarf og vel unnin störf.