Forsíða
1.3 Starfsemi ársins

Efna­hags­um­hverfi

Þróun á helstu mörkuðum og hagstærðum sem hafa áhrif á eignasafn sjóðsins.

Verðlag og vextir

Ársverðbólga náði hámarki í febrúar mánuði þegar hún mældist 10,2% en hjaðnaði þegar leið á og endaði árið 2023 í 7,7%. Þetta er áfram vel yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands sem skilgreinir stöðugt verðlag sem 2,5% verðbólgu á tólf mánuðum. Há verðbólga og verðbólguvæntingar leiddu til aukins aðhalds í peningastefnu Seðlabankans.

Meginvextir Seðlabanka Íslands stóðu í 6% í upphafi árs 2023 eftir tíðar og miklar vaxtahækkanir á árinu 2022. Vextir héldu áfram að hækka á árinu 2023 en peningastefnunefnd ákvað fjórum sinnum yfir árið að hækka vexti samtals um 3,25% með það að markmiði að draga úr spennu í efnahagslífinu og tryggja verðstöðugleika. Meginvextir Seðlabankans í lok árs 2023 stóðu í 9,25%.

Ársverðbólga náði hámarki í febrúar mánuði

Verðbólguþróun

undanfarin 5 ár
20192020202120222023

Vinnumarkaður og krónan

Hagvöxtur á árinu 2023 var 4,1% samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands og megindrifkrafturinn var þjónustuútflutningur. Atvinnuleysi hélt áfram að dragast saman og var 3,4% í lok árs eftir að hafa lækkað um 0,4% á árinu. Fjöldi ferðamanna sem heimsækja landið er aftur orðinn verulegur og atvinnuleysi í lágmarki. Íslenska krónan sveiflaðist talsvert en í lok árs nam styrking krónunnar gagnvart bandaríkjadollara 4,1% en gagnvart evru 0,7%.

Atvinnuleysi hélt áfram að dragast saman og fjöldi ferðamanna aftur orðinn verulegur

Skuldabréf

Á árinu 2023 höfðu vaxtahækkanir Seðlabankans og verðbólguvæntingar áhrif til hækkunar á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa hækkaði meira en krafa verðtryggðra skuldabréfa en þrátt fyrir kröfuhækkun á árinu varð jákvæð ávöxtun á skuldabréfamarkaði. Óverðtryggð skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) hækkaði um 4,4% og verðtryggð skuldabréfavísitala (NOMXIREAL) um 3,3% á árinu 2023.

Skuldabréfavísitölur

á árinu
JFMAMJJÁSOND

Innlend hlutabréf

Á árinu 2023 voru talsverðar sveiflur í ávöxtun innlendra hlutabréfa. Stærsti hluti ársins einkenndist af verðlækkun sem var umfangsmeiri en víðast hvar erlendis en undir lok árs varð hröð leiðrétting til hækkunar sem nánast þurrkaði út fyrri lækkun ársins. Heildarvísitala skráðra félaga á Aðalmarkaði kauphallarinnar (OMXIPI) lækkaði um 3,4% á árinu en þegar leiðrétt er fyrir arðgreiðslum til viðbótar við verðbreytingar á markaði (OMXIGI) nam lækkunin 0,7%. Verðbreyting innlendra hlutabréfa yfir árið var á mjög breiðu bili og til að mynda lækkaði gengi Sýnar um 21% á meðan bréf Ölgerðarinnar hækkuðu um 46%. 

Hlutabréfavísitala

á árinu
JFMAMJJÁSOND

Eitt nýtt félag, Ísfélagið, var skráð á Aðalmarkað kauphallarinnar á árinu og á First North markað kauphallarinnar bættist einnig við nýtt félag, Icelandic Salmon, sem áður hafði eingöngu verið skráð í Noregi. Auk þess fluttust bréf Hampiðjunnar, Amaroq Minerals og Kaldalóns frá First North markaði yfir á Aðalmarkaðinn. Eitt félag var afskráð á árinu en það var hugbúnaðarfélagið Origo. Fjöldi skráðra félaga í árslok 2023 er 31 og heildarmarkaðsvirðið hækkaði um 6% á árinu. 

4ný félög skráð á aðalmarkað
1nýtt félag skráð á Nasdaq First North

Erlend verðbréf

Fjármálamarkaðir um allan heim urðu fyrir áhrifum af verðbólgu á árinu 2023. Á árinu héldu vaxtahækkanir seðlabanka heimsins áfram en undir lok árs voru væntingar markaðsaðila farnar að lúta að því að á næstu misserum færu vextir aftur að lækka í kjölfar þess að verðbólga hefði tekið að hjaðna. Hagvöxtur hefur haldist sterkur og atvinnuleysi lágt. Töluverðar sveiflur voru á erlendum hlutabréfamörkuðum á árinu en árið skilaði fjárfestum góðri ávöxtun.

Heimsvísitala hlutabréfa MSCI sem mælir gengi um 1.500 hlutabréfa í heiminum hækkaði um 23,8% í bandaríkjadölum en hækkunin nam 18,7% í íslenskum krónum þar sem krónan styrktist á árinu. Ef horft er til einstakra hlutabréfamarkaða er ljóst að veruleg hækkun á hlutabréfum í Bandaríkjunum átti stóran þátt í hækkun heimsvísitölunnar á árinu 2023. Hlutabréfaverð í Bandaríkjunum mælt með S&P500 vísitölunni hækkaði um 26,3% í bandaríkjadölum en 21,1% í íslenskum krónum. Í Evrópu skilaði MSCI Europe vísitalan 15,8% hækkun í evrum en 15,1% í íslenskum krónum. Hækkun á hlutabréfaverði nýmarkaðsríkja mælt með MSCI Emerging Markets vísitölunni hækkaði um 9,8% í bandaríkjadölum en 5,3% í íslenskum krónum.

Heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) hækkaði um 23,8%